Gleðjumst og gleðjum aðra!
Gleðjumst og gleðjum aðra!
Við höfum margar ástæður til að gleðjast yfir gjöfum sem við erum aðnjótandi sjálfar eða erum með í að gefa öðrum.
Það er góð tilfinning að vera aðnjótandi þeirrar gleði að geta gefið öðrum gjafir sem gleðja, gjafir sem eru kærkomnar og nýtast vonandi vel.
Gjafir geta verið í margbreytilegu formi og stundum eru okkur gefnar gjafir sem við gerum okkur ekki strax grein fyrir að séu gjafir en tökum sem sjálfsögðum hlut.
• Hvaða gjafir hafa þér til dæmis verið gefnar í dag?
• Hvernig var viðmót annarra gagnvart þér?
• Sýndir þú þakklæti fyrir gott viðmót, þakkaðir þú fyrir hrós sem þú fékkst – eða dattstu í þá gryfju að fara að afsaka þig? … eða þagðir þú bara?
Þegar einhver segir eitthvað fallegt við okkur, þá ættum við að taka því fagnandi með brosi á vör eða þakka viðkomandi fyrir.
Ef við sýnum engin viðbrögð þá erum við eiginlega að segja að fallegu orðin eða vingjarnlega viðmótið skipti okkur engu máli. Við erum að vanþakka gjöfina sem átti vafalítið að gleðja okkur.
En hvernig er þetta í daglegu lífi þínu, heima og á vinnustaðnum? Ein dýrmætasta gjöfin sem við getum gefið öðrum er að leyfa samferðafólki okkar að finna að það skiptir máli. Við þurfum að gefa okkur tíma til að hlusta á fólkið okkar, sýna því áhuga.
Ertu sátt við eigin framkomu?
Stundum þurfum við líka að læra að þegja. Bara þegja og hlusta, nota virka hlustun – gefa viðkomandi 100% athygli og spyrja svo opinna spurninga sem gefur hinum aðilanum tækifæri til að tjá sig um áhugamál sín eða annað það sem honum eða henni liggur á hjarta.
Okkur væri líklega öllum hollt að fara yfir daginn í dag í huganum, líkt og við værum að horfa á okkur sjálfar á kvikmyndatjaldi þar sem við sæjum við allt sem fram fór í dag frá því að við vöknuðum og þangað til núna. Erum við sáttar við það hvernig við komum fram við aðra? Hverju myndum við helst vilja breyta til betri vegar ef við ættum þess kost? Voru þetta góðar gjafir sem við gáfum samferðafólki okkar í dag?
Bestu gjafirnar fást ekki endilega fyrir peninga
Hvað gefur þú sjálfri þér?
Já – hvað með þig sjálfa? Hvaða gjafir hefur þú gefið þér í dag? Hvaða tíma gefur þú þér til að skoða hvað þú getir gert fyrir þig?
Þú getur lagt þig fram við að hjálpa öðrum, gefa öðrum allt sem í þínu valdi stendur – en ef þú vanrækir að rækta þinn innri mann, gleymir að hlúa að þér og andlegri líðan þinni – þá kemur að því fyrr en ella að styrkur þinn þrýtur.
Ef þú vilt hjálpa öðrum til að blómstra – þá verður þú að byrja í heimagarði, byrja hjá þér, leyfa þér að blómstra.
Ef þú vilt strá og dreifa gleði og hamingju til fólksins þíns þá þarftu að haga lífi þínu þannig að þú getir líka náð að blómstra, njóta þess að vera þú.
Ég veit að þú hefur heyrt þetta áður, en það er ekki nóg að vita af því, það þarf að fara eftir því.
Gjafir eru ekki alltaf fengnar með peningum
Við skulum hafa í huga að allra dýrmætustu og bestu gjafirnar eru ekki endilega þær sem kosta mest í peningum. Sumar gjafir er ekki einu sinni hægt að kaupa en þær byggja samt upp sjálfstraust, hamingju, gleði og innri auðlegð þiggjandans.
Töpum okkur ekki í að meta gjafir eftir verðmiðunum, gefum glaðir sem gleðja.
Með góðri kveðju
Jóna Björg Sætran, markþjálfi PCC
jona@blomstradu.is