Komdu út úr skelinni – þú kemst í gegnum kvíðann!

Komdu út úr skelinni – þú kemst í gegnum kvíðann!

Þegar álag eykst og áreitið í kringum þig heldur svo enn áfram að hlaðast upp, þá getur auðveldasta svarið þitt virst vera að draga þig inn í skelina þína og bíða af þér hugsanlega kulnun. Stundum borgar sig ekki að velja nærtækustu lausnina og þá sem virðist í fyrstu vera lang best, ó nei, hugsaðu frekar lengra því það sem skiptir öllu máli núna er að þú náir að koma þér upp úr andlegu þreytunni og kvíðanum sem fyrst.  

Ef þú ætlar þér að vera sterk til staðar fyrir börnin þín og aðra í fjölskyldunni, þá verður þú að byrja á því að styrkja þig sjálfa. Þegar þú ert glöð og þér líður vel, þá hefur það jákvæð áhrif á þá sem eru í kringum þig. Það sama má segja um að ef þú ert orðin andlega uppgefin og döpur, þá hefur það líka áhrif á aðra í kringum þig.

Nú er því áríðandi að huga að því hvað þú getur gert fyrir þig. Hvað getur þú gert til að þér líði eins vel og best verður á kosið? Hvað getur þú gert til að styrkja sjálfa þig?

Hvað varð um hugarróna?
Hvernig líður þér innra með þér? Er eitthvað þokuský sem hefur hulið hugarró þína að undanförnu? Leiddu þá hugann að því sem hefur gerst jákvætt í lífi þínu. Ef þér reynist erfitt að muna eftir einhverjum gleðistundum, kíktu þá á gamlar myndir, rifjaðu upp hvað þú hefur gert skemmtilegt með vinum þínum. Þó þér finnist það erfitt, kallaðu samt fram jákvæðar hugsanir, – þú getur það! Jákvæðar hugsanir geta nefnilega yfirgnæft þær neikvæðu og döpru.  Það er ekki þar með sagt að erfiðleikarnir og kvíðinn hverfi, en það sem er svo mikilvægt og um leið athyglisvert er, að þegar hugur þinn er á kafi í jákvæðum hugsunum að þá reynist þér auðveldara en annars að finna uppbyggilegar og jákvæðar lausnir á erfiðleikum og vandamálum.

Finndu þér næðisstund núna á eftir, settu á þægilega og helst slakandi tónlist því það getur hjálpað þér til að slaka smá á og hver veit nema þú náir þá smá yfirsýn yfir vandann.

Stundum er ekki allt sem sýnist.
Þegar kvíðinn sækir að þá er stutt í að óttast að það allra versta muni gerast. Allt virðist svart. Öll sund lokuð. Bara tómið og það að standa ráðalaus frammi fyrir vandanum.  Það er svo ótrúlegt hvað hugurinn getur spólað sig fastan í neikvæðum hugsunum. Þú getur samt nýtt þér ótrúlegan kraft og viljastyrk sem ég er handviss um að þú átt þarna innra með þér.

Hugsanir eru bara hugsanir.
Hversu ógnvænlegt þetta er sem þú óttast að muni gerast, þá skaltu leiða hugann að því hvaða rök og sýnilegar staðreyndir eru fyrir því að þetta gerist.  
Stundum er það svo að eitthvað gerist sem við höfum sjálf ekki neitt vald yfir, eitthvað sem við getum ekki haft jákvæð áhrif á eða leyst úr. Þá verðum við að sætta okkur við aðstæður og huga að því hvernig við getum gert það allra besta úr aðstæðum okkar. Miklu oftar er það þó almennt þannig að þreytan, kulnunin og kvíðinn hafa villt um fyrir okkur og því upplifum við að það allra versta sé yfirvofandi.

Það er jákvæð leið út úr kvíðanum.
Þú getur unnið með kvíðann þannig að hann hamli þér ekki lengur.  Þegar þú gerir þér grein fyrir því hvenær og hvernig kvíði er að læðast að þér, gríptu þá til þess að hugsa jákvætt – þó það kosti þig átak. Á vefnum mínum www.blomstradu.is er ég með rafbók sem þú getur hlaðið niður hjá þér. Þar set ég fram 7 leiðir í átt að því að þú getir elskað lífið á ný, laus við kvíðann.
Ég vona að þessi skrif mín hafi aðeins létt undir með þér,

Gangi þér vel
Bestu kveðjur

Jóna Björg Sætran, M.Ed., PCC markþjálfi
„kvíðaleysis markþjálfi“ – hjálpar konum við að yfirvinna kvíða
jona@blomstradu.is

Tengt efni