Hverjir eru áhrifavaldarnir í lífi mínu?

Hverjir eru áhrifavaldarnir í lífi mínu?

Einn verulega góður og traustur vinur getur verið þér meira virði en 1000 kunningjar. Það er hins vegar frábært að eiga bæði góða vini og góða kunningja. Okkur er öllum hollt að umgangast annað fólk, maðurinn er félagsvera sem hefur þörf fyrir góð og gefandi samskipti,  persónuleg samskipti sem efla og styrkja sjálfsvitund þína og sjálfstraust. Að sama skapa eru særandi samskipti sem byggja á niðurrifi, hroka og fyrirlitningu til lítils annars en að rífa niður sjálfstraust, framsækni og lífsgleði. Þú hefur einna mest þörf fyrir samskipti þar sem þú ert ekki aðeins þiggjandi heldur einnig sem gefandi, því á þann hátt vex persónulegur þroski þinn í margvíslegum skilningi.

Aðstæður þínar í dag eru eins og þær eru vegna þess hvernig líf þitt hefur verið hingað til. Ef aðstæður þínar hafa verið erfiðar um nokkurt skeið, þá skaltu ekki hafa um of áhyggjur af því að svo verði um alla framtíð. Það er óþarfi því þú hefur val og getur breytt aðstæðum þínum þér í hag. Fyrst þarftu að vita hvað þú vilt. Næst skaltu skoða vandlega hvernig aðstæður þínar eru og reyna að finna hvaða áhrif innra með þér og í umhverfi þínu hafa orðið til þess að aðstæður þínar urðu eins og þær eru í raunveruleikanum í dag.

Dagurinn í gær er liðinn, klukkustundin sem var áðan er líka liðin og kemur ekki aftur. Þú getur tekið þér tak, farið á einhvers konar byrjunarreit og hafist handa á ný. Þú getur tekið til við eitt mikilvægasta verkefni lífs þíns því nú getur þú lagt grunninn upp á nýtt, skapað þína eigin framtíð. Það er nær sama hverjar aðstæður þínar eru, það er vel flest hægt að lagfæra og breyta þannig að mál fái farsælli lausn en hingað til. Það gerist ekki sjálfkrafa, þú þarft að vita hverju þú vilt breyta og síðan er að bretta upp báðar ermarnar og setja sig í framkvæmdagírinn.

Skoðaðu með gagnrýnum huga hverjir hafa verið áhrifavaldarnir í lífi þínu hingað til – OG hvaða áhrif þeir hafa haft á þig og það lífsmynstur sem þú hefur skapað þér og / eða þróast inn í. Hvað vilt þú hafa á annan veg hér eftir? Hve mikilvægt er það þér? Hvað færir það þér? Hverju þarftu að „fórna“? Já, stundum þurfum við að fórna einhverju sem hefur verið okkur á einhvern hátt kært, til að geta haldið áfram vegferð okkar í lífinu, í leið að þeim markmiðum sem við viljum ná. Það er ekki bæði haldið og sleppt. Sumt þarf að leggja meiri áherslu á – það þarf að draga úr öðru.

Hvaða einstaklingar hafa haft einna mest og djúpstæðust áhrif á þig á síðustu árum? Eru þetta einstaklingar sem hvetja þig áfram til dáða þegar þú treystir þeim fyrir því sem þig langar til að ná að „afreka“ í lífinu?  Eru einhverjir þeirra frekar að draga úr þér, segja þér jafnvel að hætta þessari vitleysu að halda að þú getir gert eitthvað merkilegt, þú sért nú barasta þú sjálf! Ertu í samneyti við fólk sem virðist bara alls ekki eiga sér nein mannbætandi og sjálfseflandi markmið, fólk sem lifir aðeins fyrir líðandi stund og finnst algjör óþarfi að hugsa til framtíðar og meira öryggis, allt reddist jú hvort sem er á endanum?

Gerðu lista yfir jákvæða og uppörvandi vini þína og svo annan lista yfir þá vini þína sem þú upplifir að dragi frekar úr þér kjark og þor. Hve mikilvægt er það þér að umgangast neikvæðu vinina þína? Getur þú verið án þeirra um nokkurn tíma, t.d. í heilan mánuð? Það getur reynst þér mikilvægt á meðan þú ert að vinna að því að endurbyggja sjálfstraustið og framkvæmdagleðina. Þú þarft ekki að segja alfarið skilið við þetta vafalítið ágæta fólk, hins vegar getur þér verið mikilvægt að gefa þeim frí í nokkrar vikur – jafnvel í nokkra mánuði.
Eitt er gott að hafa í huga þegar þú gerir svona lista yfir jákvæðu og neikvæðu einstaklingana. Ef þú ert búin að hlaða niður ókeypis rafbókinni minni af https://blomstradu.is/ þá er ég þar á einum stað að leggja til, að þegar þú skrifar niður upplýsingar t.d. varðandi einstaklinga eða aðstæður, sem þú vilt forðast að aðrir viti um, þá skaltu gera tákn í stað þess að skrifa nafn eða heiti. Þá ert það aðeins þú sem veist um hvaða einstaklinga eða aðstæður er að ræða og þú sleppur við að hafa áhyggjur af því, að einhver lesi sér til um þetta ef þú gleymir stílabókinni / dagbókinni þinni á glámbekk.

Næstu vikurnar skaltu leggja áherslu á að umgangast aðeins jákvæðu og uppörvandi vinina þína.  Ræktaðu þessa vináttu. Þú getur ekki verið aðeins þiggjandi vináttu þeirra. Spurðu sjálfa þig hvað þú getur gert gott fyrir vinina þína sem eru þér svo dýrmætir. Leyfðu þessum góðu vinum þínum að finna að þú metur vináttu þeirra, hún er svo langt því frá sjálfgefin.

Ef þú hefur ekki enn nýtt þér að hlaða niður ókeypis rafbókina mína af https://blomstradu.is/ sem ég nefni „7 skref í áttina að því að elska lífið á ný laus við kvíðann!“ þá skaltu endilega gera það, ég er viss um að efni hennar geti nýst þér vel.  

Blómstraðu! Njóttu þess að vera þú!
Með bestu kveðju

Jóna Björg Sætran, M.Ed., PCC markþjálfi
jona@blomstradu.is

Tengt efni