Líttu í spegilinn!

Líttu í spegilinn!

Já, hvernig væri að líta sem snöggvast í spegilinn og kynnast ögn betur persónunni sem þú sérð þar? Þekkir þú þennan einstakling? Hversu vel þekkir þú þessa persónu? Þið hafið jú farið í gegnum sætt og súrt um all nokkra hríð, það ferðalag hefur jafnvel tekið nokkra áratugi. Þessi tími hefur að öllum líkindum flogið afar hratt hjá þegar litið er til baka, þó svo að stundum hafi tíminn virst standa algjörlega í stað ………  hefur hreinlega aldrei ætlað að líða.

                Það er ekki ólíklegt að þú hafir átt mjög annríkt allan þennan tíma. Þú hefur haft í ótal mörg horn að líta, verkefnin sem hafa komið til þín hafa verið óteljandi og stundum hrúgast inn á viðkvæmum stundum.  Þú hefur hlaupið í öll verk, ekki bara þín eigin – heldur jafnvel líka annarra í kringum þig. Ef grannt er skoðað þá kannast þú jafnvel við það að hafa oft á tíðum yfirtekið verkefni sem aðrir hafa ætlað að sinna vegna þess að þér hefur fundist þeim verkefnum mun betur borgið í þínum höndum en t.d. maka þíns eða barna þinna. Þannig hefur þú drifið í að taka til inni hjá unglingnum af því að þér blöskraði ólyktin af óhreinu fötunum á gólfinu eða hálftómu gosdósunum og pizzakössunum. Hvað hefði nú gerst ef þú hefðir látið þetta ógert og hreinlega leyft unglingnum að upplifa einu sinni eiginn sóðaskap í sinni (næstum því) verstu mynd? Og hvað með þvottinn sem þú drífur í að þvo þó svo að maki þinn hafi sagst ætla að sjá um þetta seinna í vikunni? Já og svo braustu saman handklæðin þarna um daginn – sem sagt þú braust þau aftur saman vegna þess að unglingurinn þinn sem átti að sjá um það braut þau ekki eins og þú hafðir beðið um að það yrði gert. En – þau voru samt samanbrotin inni í skápnum á baðherberginu. Hvaða máli skiptir það í raun hvernig þau eru brotin saman? Er ekki miklu mikilvægara að unglingurinn þinn stóð við sitt, hann setti handklæðin í þurrkarann eins og þú baðst um  – og svo braut hann þau saman og setti á sinn stað.  Mundir þú eftir því að hrósa honum fyrir það – eða fórstu strax að tal um það sem hann gerði öðruvísi en þú baðst um?

                Ef þú lítur nú í spegilinn – veltu þá fyrir þér hvaða samband þú hefur ræktað við spegilmynd þína – þ.e. þig? Manneskjan sem þú sérð í speglinum, hvort er þetta besti vinur þinn eða mesti óvinur þinn? Hvernig talar þessi persóna um þig í áheyrn annarra. Er hún stolt af þér og hrósar þér – eða er hún gjörn á að afsaka allt í fari þínu, skammast hún sín fyrir þig? Finnst henni allt ómögulegt við þig? Talar hún um hvað þú sért illa fær um að gera hlutina rétt, þér sé alltaf að „mistakast“ eitthvað? Ef hún talar svona um þig í áheyrn annarra, hvernig hefur hún þá  talað um þig þegar hún heldur að enginn heyri til? Hvers konar hugsanir hafa verið ríkjandi í huga hennar um ágæti þitt, glæsileika þinn, hæfni þína og hæfileika á ótal sviðum. Skyldu þær hugsanir hafa verið jákvæðar og hvetjandi – eða  er líklegra að þær hafi verið í svipuðum niðurrifstón og það hvernig hún talaði um þig við aðra? Hafa hugsanirnar ef til vill verið mörgum sinnum neikvæðari heldur en það sem hún sagði?

                Staldraðu við nú strax í dag og leggðu þig eftir því að kynnast mun betur þessari persónu sem þú sérð í spegilmynd þinni þarna í speglinum.  Kynnstu henni vel og ræktaðu sambandið við hana. Rifjaðu upp hverjir voru draumar hennar, markmiðin hennar, áhugamálin hennar, hver var hún og hver er  hún í dag? Hvar er hún stödd og hvers vegna? Ef hún er ekki sátt, fáðu hana þá til að skilja að hún getur breytt aðstæðum sínum til betri vegar. Hún stendur ekki ein þó henni líði þannig stundum. Það eru margir sem væru örugglega viljugur til að styðja hana og styrkja til heilbrigðari sjálfsmyndar og meiri hamingju.
Hjálpaðu henni til að skilja að hún megi leyfa sér að blómstra. Hún má taka pláss. Hún má leyfa sér að elska lífið á ný og njóta.

Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!.

Jóna Björg Sætran, PCC markþjálfi
jona@blomstradu.is

Tengt efni