Jólahlaðborðið ógnvænlega

Þegar þú ert heltekin af kvíða þá finnst þér kannski að allt sé vonlaust og þú finnur hvergi leið út úr erfiðleikunum. Það versta er að þú þorir ekki að segja frá þessu.

Af hverju ert þú svona kvíðin fyrir því sem öðrum þykir bara sjálfsagður hlutur? Þú þorir ekki að tala um þetta af því þú ert hrædd um að fólki finnist þú skrítin og þess vegna er bara eins gott að mæta ekki í matarboðið, veisluna, eða hittinginn… maður vill ekki að fólk geri grín að sér.

Þú ert nú líka smá veik núna – er það ekki annars? Ábyggilega með hita, allavega er þér orðið smá illt í hálsinum og það hefur verið að versna frá því í gær. Já – lang best að senda bara sms núna og segja að þú bara komist alls ekki í hittingin í kvöld, bara so sorrý … er bara orðin veik, ábyggilega komin með flensuna!  Best að drífa í því snöggvast! Og þú tekur símann, sendir sms og ert búin að ‘beila’ – eina ferðina enn.

Kannast þú eitthvað við þetta?

Kvíðir þú aðstæðum sem engan annan kvíðir fyrir? Jólahlaðborðið með stórfjölskyldunni fer að nálgast og eftir því sem nær dregur versnar líðan þín. Miklar þú þetta svona fyrir þér? Þú ert ekki ein og það er í raun engin ástæða til að skammast sín fyrir að vera svona kvíðin. Það er fullt af fólki í kringum þig sem er alveg ótrúlega kvíðið.

Ég held ég geti líka alveg fullyrt það við þig að það er einhver kunningja þinna sem er mjög kvíðinn fyrir einhverju sem þér finnst eðlilegast af öllu! Svona eru nefnilega lífið og tilveran. Við erum ekki öll eins. Við fæðumst svo óhrædd við allt og alla en svo eftir því sem við kynnumst heiminum betur, uppalendum okkar, skólanum, fjölmiðlunum, vinahópnum og bara lífinu svona almennt, þá þróum við með okkur allskonar tilfinningar. Við verðum fyrir ýmsum skakkaföllum í lífinu og stundum svo hressilega að okkur reynist erfitt að fálma okkur inn á þennan eftirsótta meðalveg aftur, á þennan þrönga stíg þar sem allt gengur vel.

En, veistu hvað! Það er hægt að fá aðstoð til að ráða við kvíða. Það er engin ástæða til að láta kvíða heltaka huga þinn.  Kvíði stafar af því að þú óttast hið óþekkta. Þú ert að hugsa um einhverjar aðstæður sem þú annaðhvort hefur lent í eða ert smeyk um að lenda í. Það eru ástæður fyrir þessum ónotum sem þú finnur. Kvíðinn fer af stað eftir að hugsanir sem tengjast þessum atvikum leita á huga þinn, erfiðar neikvæðar hugsanir sem draga smá saman úr þér allan kjark.  En athugaðu að hugsanir eru einfaldlega bara hugsanir – og ekkert annað en hugsanir. Þó svo að þú óttist að ákveðnar aðstæður leiði til hrikalega erfiðra aðstæðna þá er það ekki öruggt að svo verði. Með því að skoða nánar rökin á bak við kvíðann, horfa á aðstæður úr fjarlægð, þá áttu auðveldara með að meta þetta allt saman á hlutlausari hátt en annars.

Þegar hugurinn uppfyllist aftur og aftur af kvíða þá fer þér að líða illa, þú verður kannski döpur, vilt ekki hitta neinn og smá saman ferðu hugsanlega að rækta með þér félagsfælni. Þér fer að líða illa innan um aðra. Þú ferð að kvíða fyrir því að fá kvíðakast. Þú ferð ekki á fætur, dregur bara sængina upp fyrir haus, slekkur á símanum og svarar heldur ekki dyrabjöllunni.

Er nokkurt vit í þessu? Þetta er svo mikill óþarfi og sóun á hæfileikum þínum! Ha, hæfileikum …? Já, ef þú ert ekki virk, ef þú ert ekki að nýta þessa frábæru hæfileika sem þú býrð yfir þá ertu að meina öðrum að njóta hæfileika þinna og þú ert að sóa dýrmætum tíma þínum sem þú gætir annars nýtt þér til að njóta þess að blómstra þvílíkt, bæði í einkalífi og starfi!

Og veistu hvað? Það þarf ekki að vera flókið að ráða bót á kvíða þínum. Þú getur lært að ráða við þessar erfiðu hugsanir sem leita á huga þinn. Þú getur komist út úr kvíðahringnum sem þú ert búin að velkjast um í alltof lengi. Þú getur lært að vinna með kvíðann þinn og hér á vefnum getur þú hlaðið niður bæði vinnuskjali og rafbók frá mér sem ég samdi til að hjálpa þér og öðrum til að skilja betur hvernig er hægt að vinna bug á kvíðanum.

Er ekki kominn tími til að þú setjir sjáffa þig í forgang til að yfirstíga kvíðann þinn og geta notið þess að blómstra án kvíða?

Hvað ætli það sé varðandi jólahlaðborðið sem kallar fram þennan kvíða? Væri ekki frábært að geta mætt full tilhlökkunar og notið þess að vera með ættingjum og vinum?

Ef þú ert ekki búin að hlaða niður vinnuskjalinu mínu og rafbókinni minni þá skaltu endilega drífa í því og ná að taka fyrstu skrefin til að komast yfir kvíðann þinn.

Þú þarft að fá að blómstra laus við kvíðann. Það er hægt!

Með góðri kveðju
Jóna Björg Sætran, M.Ed., PCC markþjálfi
jona@namtaekni.is

Tengt efni