Hvernig bregstu við mótlæti?

Hvernig bregstu við mótlæti?

Það er ekki alltaf nóg að vita hvað þú vilt, hvernig þú vilt verja tíma þínum, árunum þínum. Þú þarft kjark til að halda stefnunni þó svo að eitthvað fari öðruvísi en þú ætlaðir í upphafi. Lífið er ekki einstefna, við komumst ekki hjá því að fara stundum út á ytri brún, eiga erfitt með að velja þegar kemur að „gatnamótum“, krossgötum, troðningum eða slóðum sem liggja meðfram aðalbrautinni.

Aðalatriðið er að við verðum alltaf að hafa í huga að við sjálfar getum haft mikil áhrif á hvernig mál þróast, hvernig við förum að því að fást við öll þau verkefni sem við fáum í fangið, stór og smá – og sum þeirra jafnvel eitthvað sem við hefðum gjarnan viljað sleppa að þurfa að fást við. EN – þá er bara að herða sig upp, verða „öflugri ég“!

Það skiptir nefnilega ekki öllu máli til lengri tíma litið hvaða mótlæti og erfiðleikum þú mætir í lífinu – heldur skiptir meira máli hvernig þú bregst við, hvað þú gerir í stöðunni. Þú getur t.d. byrjað á þessu:

1. Hafðu í huga að þó að erfiðar hugsanir hafi leitað á huga þinn að undanförnu, þá eru hugsanir „bara“ hugsanir, þær eru ekkert endilega neinn sannleikur. Það er alls ekki víst að það sem þú óttast mest að muni gerast gerist.

2. Skrifaðu niður það sem þú hefur áhyggjur af. Með því að skrifa niður hugsanir þínar þá nærðu að fjarlægja þig smá frá þeim og um leið verður auðveldara að finna hvernig þú getur snúið málunum þér í hag.

3. Hvaða skref þarftu að taka? Já, mögulega þarftu að fara út fyrir þægindahringinn en ekki mikla það fyrir þér um of, skrifaðu niður hvað það er sem þú þarft að gera. Þú getur það!

4. Einbeittu þér að því að hugsa um það sem hefur gengið vel hjá þér. Sjáðu fyrir þér ýmsar stundir í lífinu þar sem þú hefur fundið fyrir innri gleði og stolti. Ef þú leitar vel þá finnur þú pottþétt mörg slík augnablik. Staldraðu við þau og njóttu þeirra.

5. Þorðu að vera öðruvísi, þorðu að fara þá leið sem þú finnur í hjarta þínu að er rétt fyrir þig.

6. Þorðu að segja „nei“, til að geta sagt „já“. Þú átt alltaf val.

7. Hvað er það sem skiptir þig mestu máli? Ræktaðu það. Forgangsraðaðu til að þú hafir tíma og aðstöðu til að rækta það sem þér er mikilvægast. Ertu nokkuð að gleyma sjálfri þér? Þú verður að hlúa að sjálfri þér sem best þú getur, til að hafa kraft og orku til að rækta samskipti þín við aðra.

Vonandi hjálpa þessi fáeinu atriði þér sem ert í þessari stöðu, að leita eftir svörum við því hvernig þú verður „öflugri þú“. Þú ert miklu öflugri heldur en þú gerir þér grein fyrir, ég er viss um það. Ég hef trú á þér þó ég þekki þig ekki, bara það eitt, að þú hefur gefið þér tíma til að spyrja – og svo til að lesa þessar línur, segir mér að þú ætlir þér að gera þitt „góða“ líf enn betra. Gangi þér sem allra best.

Bestu kveðjur
Jóna Björg Sætran, M.Ed., PCC markþjálfi
jona@blomstradu.is

Tengt efni