Ertu einmana – jafnvel innan um aðra?

Ertu einmana – jafnvel innan um aðra?

Þú skrifaðir mér að þegar þú lítir í spegilinn þá getir þú ekki séð að þú sért neitt mikið frábrugðin hinum stelpunum í útliti. Þú leggir þig líka eftir því að vera flott klædd, fylgist grannt með því hvernig „vinsælu“ stelpurnar í deildinni eru klæddar og gerir þitt besta í að vera ekki eftirbátur þeirra.

Þér finnst hæpið að það sé vond lykt af þér, þú ferð jú í sturtu á hverjum morgni og ert bara alltaf rosalega flott – já og fín. Samt gangi þér ekkert að eignast vinkonur. Öll samskipti séu bara á yfirborðinu og afmarkist við allra nauðsynlegustu hóp-verkefnavinnu. Ekkert umfram það.

Segðu mér nú eitt.

Getur verið að þú sért sjálf alltaf tilbúin til að komast hjá því að þurfa að tala mikið við aðra. Hvað er í gangi? Hvers vegna ertu svona óörugg með þig?

Ég hef að vísu aldrei hitt þig en ég er nokkuð viss um að þú sért bara ósköp venjuleg ung kona, skemmtileg, hæfileikarík og dugleg í námi – en með dálítið brotna sjálfsmynd. Flott stúlka sem gerir gífurlegar kröfur til sjálfs sín, hugsanlega of miklar kröfur á sumum sviðum.

Veistu, eitthvað af því fólki sem þú sérð blaðskellandi á spjalli við aðra er ef til vill jafn einmana innra með sér og þú. Hugsanlega líður sumum þeim jafnvel enn verr en þér. Þér virðist mikilvægt að komast óumbeðið í hópverkefni með öðrum. Lítum aðeins á það. Hugsaðu tilbaka til tímans þegar þú lentir síðast í þessu. Sjáðu það fyrir þér í huganum. Hvað varst þú að gera?

Sastu ein og grúfðir þig yfir bækurnar, þóttist vera upptekin en í raun kveið þér bara svo fyrir að einhver sem þig langaði bara alls ekki að vinna með myndi í lokin koma til þín og stinga upp á samvinnu?

Þú vildir bara vinna með þeim bestu en þau hópuðu sig alltaf saman. Hvernig leið þér?

Magaverkur og sviti? Ömurleg tilfinning að fá ekki að vera með. Hvað geti eiginlega verið að þér?

Ef þú getur séð þetta allt fyrir þér og rifjað upp hvernig þér leið, þá skaltu spá í hvað hefði verið flott hjá þér að gera. Hvað langaði þig að gera?

Ef þú hefðir nú staðið upp, farið yfir til þeirra í „draumahópnum“ þínum, og bara hreinlega spurt hvort þú mættir vera með þeim í hóp, hvað hefði verið það allra, allra versta sem hefði geta gerst?

Hvað hefðu þau grætt á því að fá þig með í hópinn?

Hvað hefðir þú haft fram að færa sem hefði komið sér vel fyrir hópinn?

Varstu tilbúin með það?

Hvað með öll gögnin sem þú varst búin að liggja yfir og forvinna heima til undirbúnings. Hefði ekki verið flott hjá þér að ganga yfir til þeirra með þau í hendinni og spyrja um leið hvort þau gætu ekki nýst í verkefnavinnunni?

WIFM reglan gildir víða í samvinnu og samskiptum „What´s in it for me?“ Þau hefðu grætti heilmikið á því að fá þig í hópinn og um leið fengið tækifæri til að kynnast þér og þú þeim. Þannig hefst vinátta.

Stundum þurfum við að stíga með tærnar út fyrir þægindahringinn til að nálgast það sem við viljum. Það gildir á öllum sviðum lífsins. Prófaðu það næst. Gerðu það sem þig dreymir um að gera. Þú getur æft þig í huganum, séð sjálfa þig fara yfir til „draumahópsins“ – sjáðu þau taka vel á móti þér. Ef þú getur séð það fyrir þér í huganum þá er nú ansi líklegt að það geti líka gerst í raunveruleikanum. Taktu áhættuna.

Ef við tökum aldrei neina áhættu, höldum okkur aðeins við það sem okkur finnst notalegt og öruggt þá stöðnum við í félagslegum þroska. Það hentar þér engan veginn. Ég er viss um að þér á eftir að ganga vel með þetta, nú þarft þú að stíga næsta skref.

Bestu kveðjur,
Jóna Björg Sætran, M.Ed., PCC markþjálfi jona@blomstradu.is

Tengt efni