Kvíði er bara tilfinning

Kvíði er bara tilfinning

Kvíði er tilfinning sem á sér margar birtingamyndir
Kvíði er hluti af flóru tilfinninga okkar. Kvíði og kvíðatilfinningar geta reynst okkur vel þegar þær varna því að við tökum of mikla áhættu, gerum eitthvað sem gæti jafnvel reynst okkur lífshættulegt. Við ættum því í raun að fagna því að geta upplifað kvíða, við eigum það til að gleyma því að það er ekkert sjálfsagt mál að geta skynjað tilfinningar. Kvíðinn má hinsvegar aldrei ná að stjórna líðan okkar og því sem við gerum eða látum ógert.   Við þurfum að ná að skilja hvað er í gangi og hvernig við getum yfirunnið kvíðann.

Þegar við erum að byggja upp einhverskonar starfsemi, stjórna fyrirtæki, erum með mannaforráð eða erum að prófa okkur áfram með draumana okkar, þá verður oft mikið að gera. Álagið hleðst upp með ofurhraða og verður að enn meira stressi sem síðan getur svo leitt til kvíða og jafnvel slæmra kvíðakasta.

Þó álagið sé mikið og langvarandi, höldum við konur gjarnan áfram okkar striki, því við ætlum að sýna að við getum  þetta. Konur hafa oft þurft að venja sig á mikla þrautseigju og úthald til að ná að sinna öllu því sem þær þurfa og síðan bætist það við, að yfirleitt látum við konur þarfir annarra sitja fyrir okkar þörfum.

Kvíðinn getur hellst yfir okkur allt í einu – en hann getur líka verið stigvaxandi.

  • Stress er viðbragð líkamans við aðstæðum sem vekja upp óöryggi, ugg eða smá hræðslu. Það er ekki ólíklegt að þú hafir t.d. þurft að leggja fram efni á fundi eða orðið að halda kynningu sem þú hafðir ekki náð að undirbúa þig nægilega vel fyrir. Þú ert full af óöryggi til að byrja með en einhvern veginn bjargast þetta, þú kemst nokkurn veginn skammlaust út úr aðstæðunum en þú ert samt ekki sjálf sátt við frammistöðuna.
  • Við getum orðið mjög taugaóstyrkar ef við vitum að við þurfum að leysa af hendi verkefni sem við vitum að við erum ekki færar um að gera þokkalega vel. Nætursvefninn okkar verður fyrir áhrifum af þessu hugarangri, við liggjum andvaka, matarlystin hverfur og einbeitingin okkar verður hverfandi lítil. Kvíðinn fer að segja til sín og stigmagnast.
  • Eftir því sem kvíðinn vex fara neikvæðu hugsanirnar okkar að ná yfirhöndinni og við getum bara hugsað um það allra versta sem við teljum að geti gerst. Þér fer að líða illa, etv færðu í magann, þér verður óglatt eða kastar upp. Nú þurfum við að passa vel upp á framkomuna, það sem við segjum (eða látum ósagt) og það sem við gerum (eða látum ógert).
  • Þú sem ert í ábyrgðarstarfi, þarft samt stöðugt að passa upp á, að hafa góða yfirsýn yfir alla starfsemina. Ef allt á að ganga vel, þá er nauðsynlegt fyrir þig að halda ró þinni og yfirvegun, þrátt fyrir mikla spennu. Skapandi lausnir þurfa að komast að í huga þínum, þrátt fyrir að allt virðist þér vera að fara á versta veg.
  • Þetta á líka við þegar mikið álag myndast innan veggja heimilisins, þá verður áreitið og álagið oft enn persónulegra en á vinnustaðnum og getur því gengið enn nærri þér persónulega. Þú verður enn viðkvæmari fyrir áreitinu og þér er ekki síður mikilvægt en vinkonu þinni sem er í ábyrgðarmiklu starfi úti í bæ, að geta náð að róa kvíðann þinn, ná tökum á hugsunum þínum, geta haldið ró þinni samhliða því að þú náir að hugsa þig út úr vandanum.
  • Þegar við upplifum verulega mikið stress í lengri tíma getur margt farið úrskeiðis, því þá er svo komið að kvíðahugsanir taka yfir alla aðra hugsun og hefur áhrif á alla okkar hugsun og gerðir.

Þegar þú verður mjög kvíðin verður hugsun þín mjög ómarkviss og óskýr, þér finnst þú komin út í horn og eiginleg föst í eigin hugarheimi. Kannski ferðu að svitna eða að þú finnir fyrir svima, sumir fá öndunarörðugleika en aðrir fá í magann, þú verður jafnvel örvæntingafull, hrædd, leið, döpur, sorgmædd eða reið.

Það er gott til þess að vita að þú getir unnið þig út úr öllum aðstæðunum sem hér var lýst þegar þú nærð að stjórna hugsunum þínum.

Hugsanamynstrið þitt fer í hringi, festist um tíma í hringferli sem er nefnt Kvíðahringurinn og helst þar þangað til þér tekst að rífa þig lausa úr hringferlinu.

Þegar við gerum okkur grein fyrir því hvað kveikir kvíðann, hvað það er sem hrindir honum af stað, þá verður auðveldara að stoppa þetta lokaða hringferli.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég legg svo mikla áherslu á að þú skiljir gang hugsana og hvað hefur áhrif á þær. Þú getur unnið að því að stjórna hugsunum þínum betur og þegar þú verður búin að fá nokkra æfingu í því, þá getur þú bægt amk stórum hluta kvíðahugsana frá þér, róað huga þinn og sleppt takinu á kvíðatilfinningunum. Ýmislegt af því sem orsakaði kvíða hjá þér áður missir þá fljótlega þau áhrif.

Ertu búin að fá senda rafbókina mína sem er boðið uppá hér á vefnum? Hún er ókeypis og heitir Þrepin 7 í áttina að því að elska lífið á ný laus við kvíðann. Ef ekki, drífðu þá í því. Það er aldrei að vita nema hún geti gagnast þér vel.

Lífið er núna!

Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!

Bestu kveðjur og gangi þér vel

Jóna Björg Sætran
jona@blomstradu.is

Tengt efni