Greinar & fræðsla

Líttu í spegilinn!

Kvíði er bara tilfinning

Það skiptir máli að njóta lífsins

1 2 3 4

„Hvað get ég gert?“

Svona hljóðuðu talskilaboðin sem biðu mín um daginn. Eftir nokkra þögn kom svo smá framhald.
„Ég veit ekkert hvað ég á að gera. Ég er orðin svo þreytt á þessu öllu saman. Mér finnst bara ekkert ganga upp hjá mér, allt sem ég ætlaði að reyna að gera síðustu vikurnar hefur einhvern veginn bara runnið út í buskann og ekki orðið að neinu. Ég kem mér ekki að neinu.  Nú eru mánaðarmótin alveg að koma og ég er langt frá því að ná að ljúka verkefnunum sem ég á að skila í byrjun ágúst. Ef mér tekst ekki að skila þeim á tíma næ ég ekki að borga vísað í tæka tíð og þeir gætu lokað á mig. Þá vantar mig að geta keypt í matinn fyrir mig og krakkana.  Krakkarnir fara til pabba síns um helgina, Æi Jóna, hvað á ég að gera, mér finnst þetta eitthvað svo vonlaust“.

Ég hafði engin tök á að svara talskilaboðunum – númeraleyndin sá til þess.

Kannski ert þú í sömu aðstöðu og þessi stúlka, köllum hana bara Ósk.
„Kæra Ósk, það er ekkert sem heitir að gefast upp í miðju verkefni, það er aðeins eitt í boði og það er að klára dæmið og gera það með stæl.
Ég sé að þú ert með börnin þín nálægt þér, nýttu þér lífsgleði þeirra til að sjá meiri tilgang í þessu öllu saman og koma þér að verki.  Þetta verður allt svo miklu betra þegar þú nærð að klára þetta allt og getur slakað á með krökkunum, gert eitthvað með þeim sem þið hafið öll gaman af.
Síðan heyrist mér á öllu að þú þurfir að huga aðeins meira að sjálfri þér, byggja þig upp og fara að líta bæði yfir farinn veg , hvað þú sért að gera í dag og hvert þú viljir stefna. Það getur tekið smá tíma að finna út úr því þannig að á meðan að þú ert að því þýðir ekkert annað en að bretta upp báðar ermar og stinga sér til sunds í verkefnahrúguna sem bíður þín.

Farðu beint í djúpu laugina en byrjaðu nú samt á því að fara út í góðan göngutúr. Farðu ein í þennan göngutúr og nýttu hann til að hugsa um hvernig þér muni líða þegar þú nærð að ljúka mikilvægustu verkefnunum þ.e. þeim verkefnum sem gefa þér mestan  pening fyrir mánaðarmótin. Hvaða verkefni eru það? Hvernig þarftu að skila þeim? Hvað þarftu að gera til að það megi takast?  Gakktu rösklega, hreyfðu handleggina fram og tilbaka, andaðu vel að þér fersku loftinu. 
Þegar þú kemur heim, sestu þá niður með kaffi eða tebolla og skrifaðu niður verkefnin sem bíða þín. Finndu liti og TEIKNAÐU og LITAÐU smá mynd við hvert verkefnanna. Hvert þeirra er mikilvægast? Hverju er auðveldast að ljúka?  Forgangsraðaðu.  Byrjaðu síðan á því sem þú velur nr. 1.

Nú er galdurinn að sameina það að vinna og dekra við sjálfa þig. Hljómar kannski undarlega – en hlutirnir hafa jú ekki verið að ganga upp hjá þér segir þú og því sting ég upp á því að þú prófir aðra aðferð en hingað til. Þú breytir um uppskrift ef þessi kaka sem þú bakar venjulega er ekki nógu bragðgóð er það ekki?
Taktu allt til sem tilheyrir verkefninu sem þú ætlar fyrst að vinna og ljúka við til fulls. Áður en þú byrjar á vinnunni skaltu fara í gott bað eða sturtu og notaðu bestu dekursápuna þína. Gefðu þér tíma til að snyrta þig og fara í föt sem þér líður verulega vel í. Settu á tónlist (helst klassíska).  Hafðu hjá þér vatn eða annað hressandi að drekka.

Komdu þér vel fyrir við vinnuborðið, lokaðu augunum, slakaðu vel á, andaðu djúpt og rólega, fáðu fram í hugann mynd af því að þú sért að ljúka verkefninu og kallaðu fram ánægjutilfinninguna sem myndast hjá þér við það.  Sjáðu peningaseðlana fyrir þér, þú ert að móttaka greiðsluna. Brostu. Innstilltu þig á að vinna af kappi í 40 – 60 mín. Nú fyrst byrjar þú að vinna.  Nýttu næstu daga til að vinna í svona smá lotum og ljúktu helst alveg við eitt verkefni áður en þú hefst handa við annað. Farðu út að ganga 1 – 3 yfir daginn, stutta göngutúra, aðeins til að breyta til. Ef þú ert orðin strand, ákveddu þá að finna lausnina sem opnar þér leið áfram á meðan þú ert í göngutúrnum.

Ágæta Ósk, prófaðu þetta, þú hefur allt að vinna og engu að tapa. Þú getur þetta alveg. Þú veist svo hvar mig er að finna. Gangi þér vel – og bestu hvatningakveðjur
Jóna Björg Sætran M.Ed.  markþjálfi og HAM
Námstækni ehf.
jona@blomstradu.is