Það skiptir máli að njóta lífsins

Það skiptir máli að njóta lífsins

Þú þarft að geta notið lífsins!

Hvað gerðist? Hvað varð um eldmóðinn þinn, lífsgleðina og sjálfsöryggið?

Ég sakna hlátursins, ég sakna þess að sjá þig ekki brosa.
Þú varst líka oft svo fyndin, bæði þegar við vorum saman og líka þegar þú varst bara á netinu og sendir mér fyndin skilaboð. Orðin þín gátu gert daginn sem byrjaði ömurlega að besta degi vikunnar.

Hvað get ég gert til að hjálpa þér að njóta þín aftur á ný?

Það skiptir öllu máli að njóta sín og elska lífið! Lífið er NÚNA!

Ertu að hugsa nógu vel um sjálfa þig?

Það hvernig þér líður hefur áhrif á svo ótal margt sem tengist þér. Trúðu mér, þú ert mikilvægasta persónan í lífi þínu! Þú leggur sjálf línurnar um það hvernig þér líður, hvað þú gerir og hvernig þú leyfir öðrum að koma fram við þig. Þetta á líka við um öll verkefnin sem þú ert búin að taka að þér, þér finnst að þú sért að kaffærast, engin laus stund til að njóta.

Við höfum alltaf eitthvað val, en stundum þurfum við að fá aðstoð til að rjúfa einhvern erfiðan vítahring sem við höfum lent í. Aðrir geta ekki hjálpað okkur ef við erum ekki móttækilegar fyrir aðstoð.

Lífið færir okkur stundum erfið og óvænt verkefni, sem okkur þykja í fyrstu að séu óyfirstíganleg, en það er alltaf einhver jákvæð leið út úr vandanum, stundum þurfum við bara smá aðstoð til að greina eigin hugsanir til að finna okkar eigin lausnir til að greiða úr öllum flækjunum.  

Ef verkefnin þín eru farin að valda þér langvarandi áhyggjum og þreytu, er brýnt að fara yfir fyrirliggjandi verkefni og forgangsraða þeim. Það hljóta að vera einhverjir í kringum þig sem gætu létt aðeins á álaginu ef þú vilt treysta þeim til verksins. Það er þroskamerki fyrir þig að ákveða að treysta öðrum fyrir ákveðnum verkefnum – og það eykur einnig þroska, ábyrgðartilfinningu og sjálfsmat þess sem þú velur til verksins.

Ég vil endilega að þú skoðir strax í dag hvernig þú getir slakað á; í dag, á morgun og næstu daga. Þó svo að þú hafir ekki aðstöðu til að fara í burtu frá öllu sem veldur þér áreiti, áhyggjum, streitu og kvíða, þá getur þú ákveðið að taka þér fáeinar mínútur strax í dag, til þess bara að gera akkúrat ekki neitt annað en að slaka á og ná utan um hugsanir þínar.

Manstu það sem ég skrifaði um okkur konur og áreiti? Við konur ætlum okkur að klára verkefnin  – gera þau almennilega – og standa okkur með prýði. Við keyrum okkur áfram …..

Sama hvað mikið er í gangi hjá þér í dag – taktu þér smá tíma fyrir þig. Slakaðu á og hugsaðu um hvað þurfi að breytast hjá þér til að þér líði betur.

Skrifaðu það niður. 4 – 5 atriði. Hvernig er hægt að minnka álagið?
Kannski er það ekki of mikið vinnuálag sem er að draga úr þér allan eldmóð, heldur eitthvað allt annað. Hvað þarf til að þér líði betur?

Hvernig talar þú í huganum um sjálfa þig? Hrósar þú sjálfri þér – eða ertu að rífa þig niður fyrir það sem miður fer? Ef þú ert með neikvæðni gagnvart sjálfri þér –  steinhættu því þá. Þú ert örugglega búin að gera margt öflugt og flott þó svo að þér finnist þú núna vera hálf úrvinda. Hugsaðu til þeirra stunda sem þú hefur verið glöð, ánægð og stolt. Þegar þú festir hugann við slík jákvæð augnablik, þá fara í gang ákveðnar taugatengingar sem hjálpa þér til að sjá möguleikana í sérhverri stöðu og smá saman verður auðveldara að hugsa skýrt, finna skapandi lausnir á ný.

Prófaðu þetta.

Gangi þér vel.

P.s. Ertu ekki örugglega búin að fá aðgang að verkefnunum mínum tveimur sem þú getur hlaðið niður ókeypis af vefnum? Þetta eru verkefni sem fjallar um að fara að sinna sér betur og finna rót kvíða, og síðan rafbók.

Endilega skoðaðu vefinn, finndu þetta tvennt og fáðu aðgang að því.

Jóna Björg Sætran
jona@blomstradu.is
Námstækni ehf.
2022

Tengt efni