Einelti – fordómar

Einelti – fordómar

Einelti er ein birtingamynd ofbeldis, andlegs- og oft líka líkamlegs ofbeldis.

Einelti er eitt það hrikalegasta sem einstaklingar verða fyrir því fólk hristir ekki afleiðingar þess svo auðveldlega af sér. Mér er minnisstætt viðtal í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum þar sem var tekið viðtal við aldraða vistmenn á vistheimili fyrir aldraða. Heimili þetta var þar að kynna góðan, heimilislegan og huggulegan aðbúnað vistmanna og var m.a. að kynna margvíslega dægradvöl sem um leið var jú nokkurs konar iðjuþjálfun.

Það sem er grópað í minni mitt frá þessum sjónvarpsþætti er viðtal við 94 ára gamlan mann sem var eins og fleiri spurður út í hvernig honum líkaði veran á vistheimilinu. Gamli byrjaði á því að dásama starfsfólkið og eitt og annað af dægradvölinni sem hann nýtti sér, – en síðan dró niður í manninum, hann andvarpaði og svo kom „ …en ….. svo kom hann hingað hann XX úr bænum mínum heima …….. og kallaði mig sama uppnefninu og hann gerði þegar við vorum strákar…… og nú líður mér ekki lengur vel hér…“.

Þér finnst þetta kannski léttvægt – en það er það alls ekki. Ef þér hefur sjálfri verið strítt mikið í æsku, þú lögð í einelti af skólafélögum eða öðrum, orðið fyrir andlegu eða líkamlegu ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni – þá getur þú líklega skilið líðan gamla mannsins sem leið illa vegna margra áratuga gamals eineltis þegar það fór í gang á ný. Kveikjan að vanlíðaninni var þessi „strákur“, nýi vistmaðurinn, sem nú var líka orðinn 94 ára.

Orð særa – orð annarra geta haft hræðilega erfiðar afleiðingar. En – hvað með þín eigin orð í þinn garð? Hvernig talar þú um þig við þig sjálfa? Kannski talar þú ekki upphátt við sjálfa þig – en í huganum. Hvaða hugsanir eru ríkjandi hjá þér um þig? Ertu stolt af sjálfri þér? Hrósar þú sjálfri þér? Mannstu eftir að leita eftir öllu því jákvæða sem þú hefur lagt þig eftir í gegnum árin, ekki bara gagnvart þér og þínum, heldur líka gagnvart öðrum?

Í hverju ertu góð? Í hverju ertu betri en vinkonur þínar? Nefndu nokkur atriði í huganum. Þú ert alveg örugglega „best“ í einhverju, en af því að þér finnst það svo sjálfsagt mál, þá dettur þér það ekki í hug akkúrat núna. Ef þú finnur ekkert sem þú ert mjög góð í, spurðu þá einhvern sem þú treystir, „Í hverju er ég góð?“

Við erum því miður alltof færar í að sýna okkur sjálfum leiðinlega framkomu, já við getum óvart dottið í að beita okkur sjálfar andlegu ofbeldi og „einelti“ með því að gera sífellt lítið úr okkur sjálfum. Við þurfum ekki að afsaka okkur, við megum allar taka pláss.

Það á enginn að þurfa að líða fyrir einelti og ofbeldi. Það er alltaf hægt að fá hjálp til að vinna í að komast út úr slíku, hvort heldur sem eineltið og ofbeldið er af hálfu annarra gagnvart þér – EÐA frá þér sjálfri komið gagnvart þér!

Leyfðu þér að taka pláss. Leyfðu þér að þykja vænt um þig sjálfa. Vertu góð við þig. Ræktaðu sjálfa þig – þá getur þú betur ræktað sambönd þín við aðra. Þér verður að líða vel – þá verður allt auðveldara.

Nýttu þér magnaðan mátt eigin hugsana, hugsaðu jákvætt um sjálfa þig. Þú getur lesið meira um slíkt í rafbókinni minni sem þú getur hlaðið niður af vefnum mínum https://blomstradu.is/

Farðu vel með þig, Blómstraðu og njóttu þess að vera þú,

Bestu kveðjur

Jóna Björg Sætran, M.Ed., PCC markþjálfi
jona@blomstradu.is

Tengt efni